Innlent

Meiðyrðamál Ástu í Dalsmynni tekið fyrir

Að Dalsmynni
Að Dalsmynni

Í Héraðsdómi Reykjaness í morgun var tekið fyrir meiðyrðamál Ástu Sigurðardóttur, sem oft er kennd við hundaræktunina að Dalsmynni, gegn Hrafnhildi Jónu Þórisdóttur.

Hrafnhildur lét ummæli falla á síðunni hundaspjall.is fyrir einu og hálfu ári síðan sem fóru fyrir brjóstið á Ástu. Hún stefndi því Hrafnhildi fyrir meiðyrði.

Ummælin hafa verið fjarlægð af heimasíðunni en Ásta krefur Hrafnhildi engu að síður um eina milljón króna í miskabætur vegna þeirra. Hún vill að dómstóll viðurkenni að ummæli Hrafnhildar hafi verið meiðandi og dæmi hana til þess að greiða sér skaðabætur.

Ásta segist lengi hafa verið umdeild og oft verið borin þungum sökum. Meðal annars um að hún fari illa með dýrin sem hún rækti. "En þetta sem Hrafnhildur skrifaði um mig á þessari síðu var aðeins of mikið. Ég get ekki einu sinni haft það eftir," segir Ásta.

Hrafnhildur Jóna Þórisdóttir segist ekki muna hvað það var nákvæmlega sem hún skrifaði um Ástu. Hún segist þó ekki sjá eftir neinu.

"Mín skoðun stendur. Og ef ég verð dæmd til þess að greiða Ásta í Dalsmynni eina milljón í misabætur mun ég líta á það sem mitt framlag til dýraverndunarmála. En annars óska ég Ástu alls hins besta," segir hún.

Aðalmeðferð málsins fer fram í desember. Dómur mun falla þremur vikum síðar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×