Enski boltinn

Ferguson hætti við stefnumót við Frank Sinatra

Elvar Geir Magnússon skrifar
Frank Sinatra.
Frank Sinatra.

Sir Alex Ferguson sér ekki eftir mörgu á sinni ævi. Hann mun þó aldrei gleyma kvöldinu þegar hann hætti við kvöldverð með tónlistarmanninum Frank Sinatra. Ferguson hefur alltaf verið mikill aðdáandi Sinatra.

Ferguson og Sinatra ætluðu að hittast og snæða saman kvöldverð í apríl 1989. Ferguson var hinsvegar svo pirraður eftir óvænt tap Manchester United gegn Charlton að hann hætti við. Þetta er gott dæmi um þá ástríðu fyrir fótbolta sem hefur haldið honum á toppnum í meira en 20 ár. „Ég var í mjög slæmu skapi svo ég vildi bara vera einn með sjálfum mér og fór heim. Ég vildi ekki hitta neinn," sagði Ferguson.

Mark Reid skoraði sigurmark Charlton í umræddum leik. „Þetta kemur mér mjög á óvart, ég hefði alltaf mætt til að hitta Sinatra. En þetta er drifkrafturinn sem hefur gert Ferguson að besta knattspyrnustjóra sögunnar," sagði Reid.

Ferguson er mikill unnandi píanótónlistar. „Ég hlusta mikið á Nat King Cole, Matt Munro, Frank Sinatra, Dean Martin og jafnvel Annie Lennox og Mick Hucknall. Ég hef reynt að spila á píanó en þarf á kennslu að halda. Af og til sest ég samt niður og prófa mig áfram," sagði Ferguson sem einnig er þekktur fyrir áhuga sinn á hestaveðreiðum og á sjálfur hest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×