Innlent

Tjón Alcan vegna samráðs metið á um 250 milljónir

MYND/GVA
Tjón Alcan vegna samráðs stóru olíufélaganna þriggja var um 251 milljón króna á verðlagi áranna 1993-2001 samkvæmt nýrri matsgerð sem lögð var fram í málinu í dag. Fyrirtaka var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en beðið hefur verið eftir greinargerð matsmanns sem dómari skipaði að beiðni Alcan.

Fram hefur komið í fréttum að aðalkrafa Alcan á hendur Olís, Keri og Skeljunig hljóði upp á um 187 milljónir króna vegna þess tjóns sem Alcan telur sig hafa orðið fyrir vegna ólöglegs samráðs félaganna á tíunda áratug síðustu aldar og upphafi nýrrar aldar. Alcan byggir á því að vegna samráðs félaganna þriggja hafi álframleiðandinn þurft að borga hærra verð fyrir vörur frá þeim en ella. Alcan er eitt þeirra félaga sem nefnd eru í skýrslu Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaganna og á þeim grundvelli er málið höfðað.

Hjördís Halldórsdóttir, lögmaður Alcan, óskaði eftir dómskvöddum matsmanni til þess að meta tjón félagsins og samkvæmt matsgerðinni nemur tjón álframleiðandans um 251 milljón króna á verðlagi áranna 1993-2001. Forsvarsmenn olíufélaganna þriggja hafa fram til 23. september til þess að skoða matsgerðina og ákveða viðbrögð við henni en þeir geta meðal annars sjálfir farið fram á aðra matsgerð.

Tveir dómar hafa þegar gengið í Hæstarétti í málum á hendur olíufélögunum vegna samráðs þeirra. Reykjavíkurborg og Strætó fengu samanlagt um 80 milljónir króna í bætur vegna samráðsins og þá var Ker, sem áður hét ESSO, dæmt til að greiða karlmanni á Húsavík 15 þúsund krónur vegna tjóns hans af völdum samráðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×