Innlent

Össur vill samstarf við ESB á sviði jarðhitamála

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel og Andris Piebalgs, orkumálastjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í forsæti á jarðhitakynningunni í morgun.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel og Andris Piebalgs, orkumálastjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í forsæti á jarðhitakynningunni í morgun. MYND/Iðnaðarráðuneytið

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra efndi í dag til ráðstefnu í Brussel í boði orkumálastjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Þar var í fyrsta sinn á vettvangi Evrópusambandsins rætt um möguleika til nýtingar á jarðhita og bauð iðnaðarráðherra Evrópusambandinu til samstarfs um frekari greiningu á möguleikum til jarðhitanýtingar í Evrópu. Fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að Össur hafi lagt til að að Ísland og ESB myndu einnig vinna saman að því að auka nýtingu jarðhita meðal í Austur-Afríku og Suður-Ameríku.

Ráðstefnan í morgun var liður í kynningarviku Evrópusambandsins í tilefni nýrra markmiða sambandsins í loftslagsmálum og notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Síðar í dag mun Össur Skarphéðinsson eiga fund með orkumálastjóra ESB til að ræða nánar um samstarf Íslands og Evrópusambandsins á sviði orkumála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×