Innlent

Samkeppniseftirlitið kannar ummæli um matarhækkun

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri FÍS.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri FÍS.

Samkeppniseftirlitið hefur sent tvennum hagsmunasamtökum erindi vegna ummæla á opinberum vettvangi um verðhækkanir á matvælum og gruns um að seilst hafi verið of langt við hagsmunagæslu. Vísar eftirlitið til samkeppnislaga máli sínu til stuðnings.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir eftirlitið hafa tekið upp athuganir á umfjöllun Bændasamtakanna og Félags íslenskra stórkaupmanna um verðlagningu matvæla en engar ákvarðanir hafi enn verið teknar um að taka til athugunar ummæli forsvarsmanna fyrirtækja á matvælamarkaði um verðhækkanir þar. „Við munum eins og við höfum sagt fylgjast vel með," sagði Páll. „Við getum tekið upp athuganir að eigin frumkvæði á því hvort farið sé að samkeppnislögum. Þá hefst stjórnsýslumál þar sem aflað er gagna og leitað sjónarmiða sem svo lýkur með því að tekin er ákvörðun. Heimildir okkar lúta m.a. að því að beina fyrirmælum til fyrirtækja um að breyta háttsemi sinni eða ákveða stjórnvaldssektir."

Eigum fyllilega rétt á að tjá okkur

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, kvað það rétt að í kjölfar ummæla hans í viðtali við RÚV um helgina, þar sem rætt var um væntanlegar hækkanir á matvælaverði, hafi bréf borist frá Samkeppniseftirlitinu og þar verið óskað eftir afritum af öllum fundargerðum, ályktunum og samþykktum frá áramótum auk afrita af öllum tölvupóstsamskiptum milli FÍS og félagsmanna frá 1. mars.

„Þeir [Samkeppniseftirlitið] vilja meina að það að við sem hagsmunasamtök séum að tjá okkur um þessa hluti geti haft á sér yfirbragð einhvers konar samráðs. Ég er því algjörlega ósammála. Við teljum okkur sem hagsmunasamtök eiga fyllilega rétt á því að tjá okkur um það umhverfi sem fyrirtæki innan okkar vébanda starfa í og draga ályktanir af því. Ef við mættum það ekki værum við sem hagsmunasamtök að mínu mati algjörlega múlbundin. Við hljótum að mega greina stöðuna. Það liggur fyrir að gengisbreytingar síðustu þrjá mánuði hafa verið allt að 35% og ofan í kaupið koma svo þessar gífurlegu hráefnishækkanir sem dunið hafa á mönnum síðan í haust með meiri þunga en nokkru sinni," sagði Andrés.

Á heimasíðu Bændasamtaka Íslands er að finna yfirlýsingu vegna málsins þar sem fram kemur að samtökunum hafi borist bréf Samkeppniseftirlitsins vegna vísbendinga um að samtökin og einstök búnaðar- og búgreinasamtök hafi seilst of langt í hagsmunagæslu fyrir félagsmenn sína. Hafi samtökin lagt fram umbeðin gögn og þau telji sig hafa uppfyllt þá skyldu sína að gæta hagsmuna bændastéttarinnar og upplýsa neytendur um þróun í verðlagsmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×