Innlent

Sprautunálarræningi vistaður á stofnun vegna veikinda

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur komist að því að maðurinn sem grunaður er um þrjú rán í verslunum í Breiðholti nýlega skuli sæta vistun á viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds þar sem hann glími við geðsjúkdóm.

Héraðsdómur hafði úrskurðað hann í gæsluvarðhald til 18. apríl en samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar skal hann fremur vistaður á viðeigandi stofnun í jafnlangan tíma.

Maðurinn réðst inn á þremur stöðum á þremur dögum vopnaður sprautunál og rændi fjármunum. Hann var handtekinn skömmu síðar ásamt tveimur öðrum en þeim hefur verið sleppt. Í úrskurði Hæstaréttar kemur fram að maðurinn sé fíkniefnaneytandi og eigi langa sögu um geðrofssjúkdóm. Hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum.

Þá kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að rannsókn mála mannsins sé á lokastigi. Brotaferill mannsins hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Þá sé maðurinn sterklega grunaður um að hafa framið afbrot sem varðað geti að lögum allt að 16 ára fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðileg að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×