Erlent

Karzai hótar að senda hersveitir inn í Pakistan

Hamid Karzai var ómyrkur í máli í garð Pakistana í dag.
Hamid Karzai var ómyrkur í máli í garð Pakistana í dag. MYND/AP

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hótaði í dag að senda hersveitir inn í nágrannríkið Pakistan til þess að hafa hendur í hári uppreisnarmanna.

Á blaðamannafundi sagði Karzai að þegar uppreisnarmenn gerðu árásir yfir landamærin, bæði á Afgana og erlendar hersveitir í Afganistan, hefðu afgönsk yfirvöld rétt á að verja hendur sínar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Karzai sakar Pakistana um að skjóta skjólshúsi yfir uppreisnarmenn úr röðum talibana en hins vegar hefur hann aldrei áður hótað að senda herlið yfir landamærin.

Pakistanar þvertaka fyrir að þeir standi fyrir slíku og í samtali við AP-fréttastofuna sagði forsætisráðherra Pakistans að engum utanaðkomandi yrði heimilað að skipta sér af innanríkismálum landsins. Pakistanar vildu stöðugleika í Afganistan.

 

 

Á blaðamannafundi Karzais stóð til að ræða nýafstaðna fjáröflunarráðstefnu fyrir Afganistan þar sem um 1600 milljörðum var lofað til uppbyggingar. Þess í stað snerist fundurinn um flótta um 900 fanga úr fangelsi í Kandahar á föstudag. Í hópi þeirra sem sluppu voru um 350 talibanar. Karzai sagðist myndu leita uppi leiðtoga talibana hvar sem þeir væru og nafngreindi sérstaklega Baitullah Mehsud sem búsettur er í Pakistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×