Innlent

90% treysta ekki Davíð sem seðlabankastjóra

Níutíu prósent þjóðarinnar treysta ekki Davíð Oddssyni í stóli seðlabankastjóra samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir fréttastofu Stöðvar 2. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna styður ekki veru hans í Seðlbankanum.

Spurt var: Styður þú Davíð sem Seðlabankastjóra? og voru svörin greind eftir því hvaða flokk viðkomandi kaus í síðustu kosningum.

Enginn aðspurðra kjósenda Frjálslynda flokksins styður Davíð í Seðlabankanum. Eitt prósent kjósenda Vinstri grænna styðja hann í starfi og fimm prósent kjósenda Framsóknarflokksins.

Ekki er stuðningurinn heldur mikill meðal Samfylkingarmanna en þrjú prósent aðspurðra kjósenda Samfylkingar segjast styðja Davíð í Seðlabankanum.

Davíð hefur verið helsti forystumaður Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið. En stuðningur Sjálfstæðismanna við þennan leiðtoga sinn hefur dvínað hratt ef marka má könnun Stöðvar 2. Tuttugu og eitt prósent kjósenda flokksins styðja hann í starfi Seðlabankastjóra. En 79% styðja hann ekki.

Þegar allt er lagt saman kváðust 90% aðspurðra ekki styðja Davíð sem Seðlabankastjóra.

2000 manns voru í úrtakinu og um átta hundruð svöruðu. Könnunin fór fram í gær.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×