Innlent

Sigríður Lillý nýr forstjóri TR

Sigríður Lillý Baldursdóttir.
Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað Sigríði Lillý Baldursdóttur í embætti forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til fimm ára frá og með 6. febrúar. Fimm umsækjendur voru um stöðuna eftir því sem segir á vef félagsmálaráðuneytisins.

Þar segir einnig að Sigríður Lillý hafi frá árinu 1994 verið í forystuhlutverki í störfum hjá utanríkisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins. Hún er eðlisfræðingur að mennt, með uppeldis- og kennslufræði og stundaði doktorsnám og rannsóknir í endurhæfingarverkfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð.

Frá árinu 2002 hefur Sigríður Lillý starfað hjá Tryggingastofnun ríkisins, fyrst sem verkefnisstjóri, síðar framkvæmdastjóri þróunarsviðs og staðgengill forstjóra og frá síðustu áramótum sem settur forstjóri stofnunarinnar eftir að Karl Steinar Guðnason hætti.

Sigríður Lillý er auk þess einn af stofnendum UNIFEM á Íslandi og formaður Kvenréttindafélags Íslands. Sigríður Lillý er jafnframt formaður starfshóps sem vinnur nú að endurskoðun almannatrygginga á vegum félags- og tryggingarmálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×