Innlent

Beðið eftir úttekt Ríkisendurskoðunar

Gunnar Svavarsson, formaðir fjárlaganefndar.
Gunnar Svavarsson, formaðir fjárlaganefndar. MYND/Lárus

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, segir að nefndin muni bíða eftir stjórnsýsluúttekt á Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar áður en skoðað verði hvort endurskoða þurfi forsendur fjárlaga.

Eins og fram kom fyrr í dag munar rúmum fjórum milljórum á fyrri og núverandi áætlunum fjármálaráðuneytisins á afborgunum vegna eigna sem seldar voru á gamla varnarliðssvæðinu á síðasta ári.

Fjárlaganefnd ræddi málefni Þróunarfélagsins á fundi sínum í morgun og segir Gunnar að þar hafi verið ákveðið að óska eftir umsögn Ríkisendurskoðunar á efni bréfs fjármálaráðuneytisins. Stjórnsýsluúttekt á Þróunarfélaginu stendur yfir og mun Ríkisendurskoðun ljúka henni um miðjan mánuðinn.

Í fjáraukalögum ársins 2007 var gert ráð fyrir 3,5 milljörðum króna í afborganir af seldum eignum á Keflavíkurflugvelli en aðeins voru greiddar 132 milljónir. Var það vegna þess að ekki náðist að ljúka gerð tveggja kaupsamninga. Þá var gert ráð fyrir að greiðslur á þessu ári vegna sölusamninga í fyrra næmu fjórum milljörðum en fjármálaráðuneytið segir að þær verði 2,8 milljarðar. Greiðslunar nema því um þremur milljörðum í stað 7,5 milljarða.

Gunnar segir nefndina ekki hafa áhyggjur af málinu en treysti Ríkisendurskoðun til þess að fara yfir málið og skoða hvernig þessar breytingar eru tilkomnar.

Aðspurður hvort endurskoða þurfi forsendur fjárlaga vegna þessa segir Gunnar að fjármálaráðuneytið telji svo ekki vera á þessu stigi. Fjárlaganefnd muni bíða eftir áliti Ríkisendurskoðunar og ef forsendur breytist verði brugðist við þessu í lokafjárlögum ársins 2008 eða fjáraukalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×