Innlent

Unglingagengi slógust í Kringlunni

Breki Logason skrifar
Mikill fjöldi unglina safnaðist saman í Kringlunni í dag.
Mikill fjöldi unglina safnaðist saman í Kringlunni í dag. Mynd/BV

Öryggisverðir í Kringlunni hafa átt erfiðan dag þar sem hópur unglinga safnaðist saman í verslunarmiðstöðinni fyrir stundu. Svo virðist sem tvö gengi unglinga hafi mæst í Kringlunni og áttu þau greinilega eitthvað sökótt hvort við annað.

Að sögn öryggisvarðar í Kringlunni hafa verið slagsmál og stympingar í þónokkurn tíma og var enn verið að reyna að koma krökkunum út þegar Vísir náði af honum tali.

Rúmlega fimmtíu ungmenni voru samankomin og var meðal annars ráðist á einn öryggisvörðinn sem reyndi að hafa hemil á lýðnum. Hann mun þó ekki hafa hlotið alvarlega áverka.

Öryggisverðirnir áttu fullt í fangi með að hafa hemil á lýðnum.Mynd/BV

Öryggisvörðurinn segir krakkana vera á aldrinum frá 9.bekk og upp í fyrsta til annars bekks í menntaskóla. Svo virðist sem slagsmálin hafi verið skipulögð fyrirfram og var mönnum nokkuð heitt í hamsi í verslunarmiðstöðinni.

Að sögn lögreglu var hún kölluð á staðinn en greip ekki til neinna aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×