Innlent

Grindavíkurbær gleymdi að sækja um byggingarleyfi

Breki Logason skrifar
Grindavík um sumar.
Grindavík um sumar.

„Bærinn er nú að byggja þetta sjálfur en það urðu mistök með að afgreiða byggingarleyfið formlega," segir Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri í Grindavík um byggingarleyfi sem gleymdist að sækja um fyrir byggingu fjölnota íþrótahúss í bænum.

Grindavíkurbær vonast til þess að geta tekið húsið í notkun eftir mánuð en byggingunni hefur seinkað nokkuð. Ólafur segir skýringuna á því aðallega tengda óhagstæðri veðráttu undanfarið en menn séu þó bjartsýnir á að þetta fari að klárast.

Ólafur viðurkennir vel mistök í þessu máli en segir enga eftirmála vera af því. „Það var búið að kynna þetta fyrir íbúum í nágrenninu og fara yfir teikningar. Það bara gleymdist á lokasprettinum að henda þessi til skipulags- og byggingarnefndar."

Húsið var í upphafi hugsað sem fjölnotahús en þó með aðal áherslu á knattspyrnuiðkun. „Þetta er til dæmis góður kostur fyrir eldri borgara auk þess sem hægt er að stunda frjálsar íþróttir þarna inni," segir Ólafur og bætir við að þetta sé mikil lyftistöng fyrir íþróttalífið í bænum.

Í Grindavík búa 2800 íbúar og segir Ólafur að nýlega hafi verið gerður samningur við allar deildir íþróttafélagsins þess efnis að frítt verði fyrir börn að stunda íþróttir. „Bærinn greiðir æfingargjöldin og því geta börnin stundað eins margar íþróttir og þau vilja," segir Ólafur en Grindavík mun vera eina bæjarfélagið á landinu sem greiðir æfingargjöld fyrir börn að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×