Enski boltinn

Sigurmark Chelsea kom í uppbótartíma

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jon Obi Mikel fékk rautt fyrir tæklingu.
Jon Obi Mikel fékk rautt fyrir tæklingu.

Chelsea vann Everton 2-1 í fyrri viðureign liðana í undanúrslitum deildabikarsins. Sigurmarkið kom í uppbótartíma en það var sjálfsmark varnarmannsins Joleon Lescott. Chelsea lék manni færri stærstan hluta seinni hálfleiks.

Leikurinn fór rólega af stað en eftir 26. mínútna leik skoraði Shaun Wright-Phillips og heimamenn tóku forystuna. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleiknum.

Tískubylgja dómara á Englandi heldur áfram en leikmenn mega varla tækla án þess að fá rautt spjald. Jon Obi Mikel fékk að kynnast því þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Virkilega strangur dómur og Chelsea með tíu eftir á vellinum.

Einum fleiri náði Everton að jafna á 64. mínútu. Yakubu skoraði þá með þrumuskoti. Allt stefndi í jafntefli þegar Lescott skallaði boltann í eigið mark í viðbótartíma. Hann var þá í baráttu við besta mann vallarins, Wright-Phillips.

Lescott fékk tækifæri til að bæta upp fyrir mistök sín andartaki síðar en þá komst hann einn gegn Hilario, markverði Chelsea. Hilario varði og Chelsea vann 2-1.

Það er þó ekki öll nótt úti enn fyrir Everton. Liðin eiga seinni leikinn eftir en hann verður á Goodison Park 23. janúar. Þá ræðst hvort liðið kemst í úrslitaleik deildabikarsins.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Lundúnaliðin Tottenham og Arsenal. Fyrri leikur þeirra verður annað kvöld, í beinni á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×