Innlent

Funduðu með nýrri Evrópunefnd

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra áttu í dag fund með nýskipaðri nefnd um þróun Evrópumála.

Alþingismennirnir Illugi Gunnarsson og Ágúst Ólafur Ágústsson fara fyrir nefndinni en henni er meðal annars ætlað að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 um aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi, að athuga betur hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu og að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.

Þetta var fyrsti fundur hinnar nýju Evrópunefndar en auk Illuga og Ágústs Ólafs sitja þingmennirnir Katrín Jakobsdóttir, Birkir Jónsson og Jón Magnússon í nefndinni. Þá er Ingimundur Sigurpálsson fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í nefndinni, Gylfi Arnbjörnsson fulltrúi ASÍ og Erlendur Hjaltason situr í nefndinni fyrir Viðskiptaráð. Þá er Páll H. Hannesson fulltrúi BSRB í nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×