Fótbolti

Kristinn stóðst prófið í Sviss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn Jakobsson er hér í æfingabúðunum í Sviss, fyrir miðri mynd. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu af henni.
Kristinn Jakobsson er hér í æfingabúðunum í Sviss, fyrir miðri mynd. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu af henni. Nordic Photos / AFP

Kristinn Jakobsson stóðst öll þau próf sem lögð voru fyrir hann í æfingabúðum dómaranna sem koma til með að starfa við Evrópumeistaramótið í Austurríki og Sviss í sumar.

Um var að ræða æfingabúðir fyrir dómarana þar sem ýmis þolpróf voru lögð fyrir þá. Þurftu þeir að standast prófin til að fá að starfa á EM í sumar.

„Þetta gekk allt ljómandi vel. Ég náði meira að segja að slá persónulegt met," sagði Kristinn í samtali við Vísi en hann heldur aftur heim í dag.

Það voru þó ekki allir sem stóðust lágmarkskröfurnar. Þrír aðstoðardómarar, frá Hollandi, Spáni og Noregi, þóttu ekki í nægilega góðu formi og voru því sendir heim.

„Það verður þó ekki skipt um nein dómarateymi. Ef aðaldómarinn sjálfur hefði fallið á prófinu eða þá tveir af þremur aðstoðardómurum hefði þurft að skipta um viðkomandi teymi. Það kom ekki til þess nú," sagði Kristinn.

Úrið sem dómararnir koma til með að nota í EM í sumar.Nordic Photos / AFP

Þá var einnig farið yfir fyrirmæli og áherslur dómaranefndar keppninnar og fjölmiðlar fengu einnig aðgengi að dómurunum. Þeir fengu afhent opinbert dómaraúr keppninnar.

Kristinn mun starfa á þremur leikjum í keppninni en allir þeir átta dómarar sem gegna hlutverki fjórða dómara á leikjum í riðlakeppninni fara heim að henni lokinni.

„Það eru 24 leikir í riðlakeppninni og við erum átta. Við fáum því þrjá leiki hver. Eftir það munu þeir dómarar sem eftir verða í keppninni skipta með sér hlutverkum."

Kristinn er engu að síður ánægður með að fá að taka þátt í verkefninu. „Þetta er eins og draumur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×