Lífið

Umhverfisvænt og ódýrara að raka sig með rakhníf

Jakob Bjarnar skrifar
Torfi með hnífinn við barka blaðamanns
Torfi með hnífinn við barka blaðamanns
„Þetta bara svo karlmannlegt. Að skafa á sér kjammann. Upp á gamla mátann. Í stað þess að sitja inni í stofu og snyrta á sér neglurnar eins og femínisti,“ segir Torfi Geirmundsson rakari stríðnislegur í röddinni.

Blaðamaður Fréttablaðsins situr í hárskerastól Torfa á Hárhorninu við Hlemm og þorir ekki að mótmæla. Enda með hnífsblað við barka.

Torfi rakari er að tala um dásemdir nýjustu tísku. Að raka sig upp á gamla mátann. Með rakhnífi. Vakningu í Ameríku og sjálfur er hann farinn að selja rakhnífa við góðar undirtektir viðskiptavina sinna.

Endurnýting er lykilorð í dagsins í dag. Og þá er oft betra en ekki að horfa til liðinna tíma. Komist menn upp á lag með að nota rakhnífa felst í því mikill sparnaður til lengri tíma litið. Margblaða vélar og blöð eru dýr í dag. Torfi vitnar í fréttir. „Svo dýr varningur að vinsælt er að stela honum úr verslunum. Gengur sem gjaldmiðill um allan heim. Það er meira upp úr því að hafa að stela þeim hér á Íslandi og selja í fyrrum austantjaldsríkjum en smygla eiturlyfjum. Menn hafa verið teknir í tollinum með fullar töskur af dýrustu rakvélunum. Og stórmarkaðir fela þessar vörur við peningakassana.“

Fyrir um fjórum árum vakti Torfi athygli þegar hann við annan mann sló Íslandsmet í rakstri: 47 menn voru rakaðir í striklotu og þá var notast við þriggja blaða Gillette-rakhnífa. Aðspurður hvort þarna sé hann ekki kominn í mótsögn við sjálfan sig segir hann ekki svo vera. Þriggja blaða Gillette-rakvélar séu mjög góðar einkum ef menn eru að flýta sér. „Rakhnífarnir eru vandmeðfarnari. Karlmaðurinn á góða stund með sjálfum sér auk þess sem rakstur upp á gamla mátann frískar upp á húðina og gefur heilsusamlegra útlit. Og þessi aðferð er umhverfisvænni. Með gamaldags blautum rakstri er sápan það eina sem fer í niðurfallið. Þú notar rakvélablaðið aftur og aftur.“

Torfi segir mikið um það að til hans komi menn í rakstur. Ekki síst ungir menn sem vilja prófa þetta. Um er að ræða kunnáttu sem er að hverfa og aðrar hárgreiðslustofur vísa á Torfa þegar slík bón er upp borin.

„Já, það er eiginlega bara ég og svo er einn í Kópavogi,“ segir Torfi og segir Iðnskólann ekki kenna þetta lengur. Reglugerðir bjóða ekki upp á að hann noti nema einnota blöð og Torfi er með hníf þar sem einnota Gillette-blöðum er skotið í þar til gert slíður. Torfi hefur sérpantað hnífa frá Pakistan sem hann selur viðskiptavinum sínum en stálið er það sama og er í skurðhnífum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×