Innlent

Gagnrýna þröng skilyrði í auglýsingu um stöðu vegamálastjóra

Þrýst er á Kristján L. Möller að auglýsa stöðu vegamálastjóra að nýju.
Þrýst er á Kristján L. Möller að auglýsa stöðu vegamálastjóra að nýju. MYND/Pjetur

Starfsmannafélag Miðstöðvar og Suðvestursvæðis hjá Vegagerðinni krefst þess að staða vegamálastjóra verði auglýst á ný og að menntunarkröfur í starfið verði ekki skilgreindar jafnþröngar og í nýbirtri auglýsingu.

Samkvæmt auglýsingunni var verkfræðimenntun sett sem skilyrði ólíkt því sem gert var þegar embættið var auglýst fyrir sex árum. Þá var aðeins krafist háskólamenntunar og stjórnunarreynslu. Starfsmannafélagið segir í tilkynningu sinni að hjá Vegagerðinni séu starfsmenn með fjölbreytta háskólamenntun og reynslu. Með auglýsingunni, sem birtist í síðasta mánuði, sé verið að takmarka mjög þann hóp sem geti sótt um þessa stöðu, bæði innan Vegagerðarinnar og utan hennar.

Gagnrýna að skipulagsbreytingar séu boðaðar í auglýsingu

Þá gagnrýnir starfsmannafélagið að starfsmenn Vegagerðarinnar þurfi fyrst að frétta af væntanlegum skipulagsbreytingum í áðurnefndri auglýsingu. „Það hlýtur að teljast eðlilegri stjórnsýsla að ráðuneytið hefði tilkynnt starfsmönnum fyrr um að breytingar stæðu fyrir dyrum í stað þess að fréttir um þær komi fram með svo óljósum hætti í auglýsingunni.

Síðar, þann 28. mars sl., barst tilkynning frá ráðuneytinu til starfsmanna Vegagerðarinnar, þar sem kemur fram að ríkisendurskoðandi muni gera tillögur um breytingar á skipulagi verkefna hjá Vegagerðinni og Siglingastofnun. Ráðuneytið muni síðan fara yfir þessar tillögur og taka ákvarðanir um breytingar í framhaldi af því. Sú vinna verði unnin í fullu samráði við starfsfólk Vegagerðarinnar.

Stjórn starfsmannafélagsins óskar eftir því að ráðuneytið upplýsi með hvaða hætti það samráð muni fara fram og hvað hugmyndir ráðuneytið hafi um breytingar á skipulagi Vegagerðarinnar," segir í tilkynningu starfsmannafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×