Enski boltinn

Ramos reynir við Grýlu á morgun

Ramos er í góðri aðstöðu til að vinna hjörtu stuðningsmanna Tottenham á morgun
Ramos er í góðri aðstöðu til að vinna hjörtu stuðningsmanna Tottenham á morgun NordicPhotos/GettyImages

Juande Ramos hefur aðeins tapað einum leik síðan hann tók við Tottenham en á morgun reynir hann að gera nokkuð sem forvera hans Martin Jol tókst aldrei að gera í sinni stjórnartíð - að vinna sigur í grannaslagnum við Arsenal.

Tottenham hefur ekki unnið Arsenal í níu ár og þó viðureignir liðanna hafi oft verið mjög fjörugar á þessum tíma, hafa lærisveinar Arsene Wenger oftar en ekki haft betur hvort sem um hefur verið að ræða aðallið eða unglingaliðið í deildarbikarkeppninni.

Ramos á ekki síður erfitt verkefni fyrir höndum á Emirates þegar haft er í huga að vörn Tottenham, sem hefur verið afleit þangað til í síðustu leikjum, verður ansi fámenn á morgun vegna mikilla meiðsla.

Ramos er þó hvergi banginn eftir góða útisigra gegn Manchester City og Portsmouth að undanförnu.

"Það er mikill munur á þessum liðum í deildinni, en við erum ekki alveg í jafn vondum málum og við vorum áður. Við vitum að það er langt síðan við höfum unnið Arsenal, en við munum reyna okkar besta. Arsenal spilar frábæra knattspyrnu og er á toppnum, en við erum líka að spila betur upp á síðkastið. Ég held að þetta sé ekki beint sálfræðilegt, ég held að staðreyndin sé einfaldlega sú að Arsenal er með frábært lið og stóran hóp og það sé ástæðan fyrir því að okkur hefur gengið illa með þá. Það verður hinsvegar liðið sem leikur best á laugardaginn sem hefur betur í það skiptið," sagði Spánverjinn í samtali við Daily Mirror.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×