Innlent

Stjórnvöld sökuð um að leyna Alþingi upplýsingum

Heimir Már Pétursson skrifar

Stjórnarandstaðan sakaði í dag fjármálaráðherra og stjórnarliða um að halda gögnum um sölu eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli frá Alþingi. Þá fullyrða þingmenn stjórnarandstöðunnar að lög hafi verið brotin við framkvæmd sölunnar. Forsætisráðherra gefur Alþingi skýrslu um málið á morgun.

Sturla Böðvarsson áminnti Atla Gíslason þingmann Vinstri grænna við upphaf þingfundar í dag fyrir ummæli sem hann lét falla í umræðum á Alþingi í gær vegna Þróunarfélagsins á Keflavíkurflugvelli. Og þar með var fjandinn laus og dagskrá Alþingis riðlaðist vegna þarfar þingmanna fyrir að ræða störf þingsins. En forseti vildi meina að þingmaðurinn hefði ekki farið rétta leið við að óska eftir upplýsingum frá Ríkisendurskoðun.

Atli Gíslason þingmaður Vinstri grænna sagði fulla ástæðu til að þingmenn fengju aðgang að þessum gögnum. Lög hefðu verið brotin við sölu eigna á Keflavíkurflugvelli.

Samflokksmenn Atla í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, þeir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson, fullyrtu einnig að þeim hefði verið neitað um aðgang að nauðsynlegum gögnum um málið í sínum nefndum.

Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins gagnrýndi líka meinta hagsmunaárekstra í málinu og Bjarni Harðarson Framsóknarflokki sagði framkvæmd sölunnar mjög vafasama. Fjármálaráðherra vísaði öllum ásökunum um meint lögbrot og svig við reglur á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×