Enski boltinn

Markalaust hjá Manchester City og Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dietmar Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool, berst um boltann við Dirk Kuyt.
Dietmar Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool, berst um boltann við Dirk Kuyt. Nordic Photos / Getty Images

Manchester City og Liverpool skildu í dag jöfn í markalausum leik í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn var sá síðasti í deildinni á þessu ári.

Liverpool er því nú tíu stigum á eftir toppliði Arsenal en á að vísu einn leik til góða. Liðið er í fjórða sæti deildarinnar en Manchester City í því fimmta, stigi á eftir Liverpool.

Dietmar Hamann og Elano voru í byrjunarliði City á nýjan leik í dag en Rolando Bianchi var skilinn eftir á bekknum.

Rafa Benitez gerði fimm breytingar á sínu liði og setti þá Alvaro Arbeloa, Javier Mascherano, Harry Kewell, Yossi Benayoun og Dirk Kuyt í byrjunarliðið.

Fabio Aurelio komst næst því að skora í fyrri hálfleik þegar að skot hans af löngu færi var vel varið af Joe Hart, markverði Manchester City.

Liverpool jók sóknarþungann í síðari hálfleik en tókst ekki að skora þrátt fyrir nokkur góð færi. Fernando Torres fór illa með tvö góð færi og Hart varði einnig vel frá Benayoun.

Besta færi leiksins kom líklega á 87. mínútu er Dirk Kuyt átti skalla að marki en Hart og varnarmaðurinn Richard Dunne náðu saman að hreinsa boltann frá marki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×