Enski boltinn

Ferguson gefur leikmönnum lokaviðvörun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að hann muni ekki hika við að reka leikmenn frá félaginu verði þeir aftur uppvísir að slæmri hegðun utan vallar.

Mikið hefur verið rætt um jólaveislu Manchester United sem endaði með því að Jonathan Evans, nítján ára leikmaður United, var handtekinn vegna gruns um nauðgun.

„Fótboltinn hefur vissulega breyst en menn verða að geta hamið skapið sitt," sagði Ferguson á heimasíðu United.

„Við munum gera breytingar hjá félaginu þegar við sjáum einhvern missa stjórn á sínu skapi. Þegar við verðum vitni að slíkri hegðun verður viðkomandi að fara frá félaginu."

Þetta er í fyrsta sinn sem Ferguson tjáir sig um agavandamál leikmanna liðsins síðan að jólaveislan var haldin.

Ferguson hefur einnig sakað nokkra bestu leikmenn deildarinnar í dag um sjálfselsku og í stöðugri leit eftir frægð.

„Leikmenn skora mörk og ýta stundum samherjum úr vegi sínum til að fá persónulegt lof frá áhorfendum fyrir markið sitt. Það er slík hegðun sem fer í taugarnar á mér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×