Enski boltinn

Ferguson sektar leikmenn um 125 milljónir króna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson er reiður út í leikmenn sína.
Alex Ferguson er reiður út í leikmenn sína. Nordic Photos / Getty Images

Samkvæmt götublaðinu News of the World hefur Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sektað leikmenn sína um 125 milljónir króna.

Ferguson sektaði hvern einasta leikmann aðalliðsins sem tók þátt í jólagleði félagsins á dögunum. Samtals námu sektirnar einni milljón punda, 125 milljónum króna.

Ferguson hefur einnig bannað frekari veisluhöld hjá leikmönnum félagsins.

Heimildamaður blaðsins hjá félaginu sagði að Ferguson hafi aldrei verið jafn reiður út í leikmenn sína.

„Hann hefur lesið yfir leikmönnunum á hverri einustu æfingu síðan þetta átti sér stað," sagði heimildamaðurinn.

Hinn nítján ára Jonathan Evans var handtekinn vegna gruns um nauðgun í veislunni. Ferguson hefur beint spjótum sínum að reyndustu leikmönnum félagsins vegna þessa - Gary Neville, Paul Scholes og Rio Ferdinand. Ryan Giggs, Michael Carrick, Wes Brown og Wayne Rooney fengu einnig að heyra það.

Eini leikmaðurinn sem slapp við refsinguna var Cristiano Ronaldo sem tók ekki þátt í veisluhöldunum þar sem hann var viðstaddur á kjöri knattspyrnumanni ársins hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu í Sviss.

Um 100 stúlkur voru fengnar til að vera í umræddri jólaveislu of fengu eiginkonur og kærustur leikmanna ekki að koma með.

Manchester United tapaði í gær fyrir West Ham á Upton Park, 2-1.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×