Innlent

Aurskriða féll á veginn við Dalsmynni

Hjálparsveitir hafa átt annríkt í nótt.
Hjálparsveitir hafa átt annríkt í nótt.

Aurskriða féll á veginn við Dalsmynni á Kjalarnesi á tíunda tímanum í morgun. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið en lögreglan er á leið á staðinn til að kanna aðstæður.

Mikið annríki hefur verið hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna vatnsleka víðs vegar um borgina. Lekið hefur upp úr niðurföllum og inn af svölum og hafa orðið talsverðar skemmdir á eignum. Mikil úrkoma hefur verið í höfuðborginni í nótt og í morgun í óveðri sem skall í nótt og stendur enn yfir. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð vegna veðurofsans og eru björgunarsveitir Landsbjargar í viðbragðsstöðu.

Ekkert ferðaveður er á Suður- og Vesturlandi. Óveður er á nánast öllu Suðurlandi, krapi, hálka og hálkublettir á allflesturm leiðum. Þá er óveður einnig á Vesturlandi. Ófært er um Fróðárheiði og frá Grundarfirði til Ólafsvíkur og þungfært um Vatnaleið og frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar. Á Vestfjörðum er þungfært um Klettháls og óveður og þæfingsfærð um Kleifarheiði.

Mikill vindur er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli en þar hefur vindhraði farið yfir 60 metra á sekúndu í stærstu hviðunum. Allt flug innanlands hefur legið niðri í morgun og Herjólfur hefur ekki komist frá Vestmannaeyjum og ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs liggja niðri. Þá er flug frá Keflavík í athugun en flugvélar sem komu frá Ameríku í morgun náðu inn til lendingar áður er veðrið skall á. Aðeins ein flugvél hefur flogið frá landinu í morgun.

Varað er við stormi eða roki á landinu í dag og mikill rigningu sunnanlands. Spáð er miklum vindi af suðaustri um landið sunnan og vestanvert, hvassast nú fyrir hádegi en vindhraði verður um 23-28 metrar á sekúndu, hvassara í hviðunum. Vestantil lægir lítið eitt síðdegis, en snýst síðan í suð-vestan átt með éljum suðvestalands í kvöld og nótt en eystra gengur vindur niður nærri miðnætti og styttir jafnframt upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×