Enski boltinn

Allt um leiki dagsins: Tíu mörk á White Hart Lane

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Berbatov fagnar einu fjögurra marka sinna í dag.
Berbatov fagnar einu fjögurra marka sinna í dag. Nordic Photos / Getty Images

Sjö leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í dag þar sem hæst bar tap Manchester United fyrir West Ham á Upton Park.

Skrautlegasti leikur dagsins er þó án efa viðureign Tottenham og Reading þar sem tíu mörk voru skoruð, þar af átta í síðari hálfleik. Leikurinn líktist frekar handbolta en fótbolta þegar mest lét.

Ívar Ingimarsson skoraði fyrsta markið í síðari hálfleik og kom Reading í 2-1 forystu.

Chelsea vann nauman sigur á Newcastle og bættist þar með enn á vandræði Sam Allardyce. Portsmouth tapaði svo á heimavelli fyrir Middlesbrough þar sem Hermann Hreiðarsson þurfti að fara af velli í hálfleik.

Sunderland vann einnig gríðarlega mikilvægan sigur á Bolton, 3-1. Aston Villa vann Wigan og eina jafnteflið var í leik Birmingham og Fulham, 1-1.

Arsenal getur því endurheimt toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í dag með sigri á Everton en leikurinn hefst klukkan 17.15.

Salomon Kalou skoraði umdeilt sigurmark Chelsea í dag.Nordic Photos / Getty Images

Chelsea - Newcastle 2-1

1-0 Michael Essien (28.)

1-1 Nicky Butt (56.)

2-1 Salomon Kalou (87.)


Avram Grant gerði sjö breytingar á byrjunarliði Chelsea frá leiknum skrautlega gegn Aston Villa.

Petr Cech var ekki í leikmannahópnum í dag og Hilario stóð á milli stanganna. John Obi Mikel, Michael Ballack, Wayne Bridge, Tal Ben-Haim, Shaun Wright-Phillips og Juliano Belletti voru hinir sex sem komu inn í liðið í dag.

Á bekknum var hinn sautján ára gamli markvörður Rhys Taylor þar sem bæði Cech og Carlo Cudicini eiga við meiðsli að stríða.

Michael Owen var á bekknum hjá Newcastle en þeir Emre og Mark Viduka voru á bekknum og Geremi ekki í hópnum. Í stað þeirra komu þeir Nicky Butt, Claudio Cacapa og Obafemi Martins inn í liðið.

Heimamenn byrjuðu betur og var Salomon Kalou fyrstur til að ógna marki Newcastle eftir undirbúning Belletti.

Michael Essien varð svo fyrstur til að skora er hann náði að fylgja eftir skot Shaun Wright-Phillips sem fór reyndar fyrst í Kalou áður en Essien náði til knattarins og kom honum yfir marklínuna.

Snemma í seinni hálfleik var Nicky Butt nærri því búinn að skora sjálfsmark en Shay Given náði að bjarga því fyrir horn með góðri markvörslu.

Wayne Bridge var hins vegar ekki svo lánssamur því hann skoraði sjálfsmark skömmu síðar og jafnaði þar með metin fyrir Newcastle. Carles N'Zogbia gaf boltann fyrir, Martins fleytti honum áfram og reyndi Butt að koma honum í netið. Bridge var hins vegar síðasti maður til að koma við boltann áður hann fór í markið.

Það var þó Chelsea sem náði á endanum að innbyrða sigurinn, þökk sé síðbúnu marki Salomon Kalou. Boltinn barst á hann frá Claudio Pizarro sem fékk í sig skot frá John Obi Mikel. Kalou virtist reyndar rangstæður en markið stóð.

Hermann Hreiðarsson í baráttu við Dong-Gook Lee í dag.Nordic Photos / Getty Images

Portsmouth - Middlesbrough 0-1

0-1 Tuncay Sanli (20.)

John Utaka var í byrjunarliði Portsmouth á nýjan leik og Richard Hughes var enn í byrjunarliði liðsins á kostnað Sulley Muntari.

Fjórar breytingar voru gerðar á liði Boro. Gary O'Neil, Robert Huth, Mohamed Shawky og Dong-Gpok Lee fengu tækifæri í byrjunarliðinu í dag.

Tuncay Sanli hefur verið með betri leikmönnum Boro á leiktíðinni og hann skoraði eina mark leiksins í dag, þó það hafi verið nokkuð gegn gangi leiksins.

Tuncay var réttur maður á réttum stað er David James varði skot Gary O'Neil og skilaði knettinum í markið.

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth en var tekinn af velli í hálfleik.

Kenwyne Jones fagnaði marki sínu með heljarstökki.Nordic Photos / Getty Images

Sunderland - Bolton 3-1

1-0 Kieran Richardson (13.)

2-0 Kenwyne Jones (32.)

2-1 El-Hadji Diouf (41.)

3-1 Daryl Murphy (90.)


Sóknarmennirnir Andy Cole, Michael Chopra og Kenwyne Jones voru allir í byrjunarliði Sunderland í dag. Þá var Liam Miller einnig með en hann er nýbúinn að taka út leikbann og Kirean Richardson var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn síðan í ágúst.

Hjá Bolton gerði Gary Megson tvær breytingar á liðinu sem tapaði fyrir Everton í síðustu umferð. Jlloyd Samuel kom inn fyrir Danny Guthrie og Gavin McCann fyrir Ivan Campo.

Þessi mikli fjöldi sóknarmanna í liði Sunderland bar snemma árangur því Jones lagði upp mark fyrir Kieran Richardson sem skoraði með laglegu skoti.

Jones sjálfur bætti svo öðru marki við forystu Sunderland er hann skallaði knöttinn í markið eftir hornspyrnu Richardson.

En leikmenn Sunderland fóru illa með forystuna og rétt fyrir leikhlé náði El-Hadji Diouf að minnka muninn fyrir gestina. Diouf tók aukaspyrnu af löngu færi og hafnaði boltinn í netinu eftir að hafa skoppað í gegnum vörn Sunderland. Það leit reyndar út fyrir að boltinn hafi farið af hendi Paul McShane.

En það var svo í blálokin að Daryl Murphy gulltryggði sigur Sunderland með marki eftir sendingu Andy Cole. Mikilvægur sigur hjá Sunderland því staðreynd.

Ívar Ingimarsson fagnar marki sínu í dag.Nordic Photos / Getty Images

Tottenham - Reading 6-4

1-0 Dimitar Berbatov (7.)

1-1 Kalifa Cisse (16.)

1-2 Ívar Ingimarsson (53.)

2-2 Dimitar Berbatov (63.)

2-3 Dave Kitson (69.)

3-3 Dimitar Berbatov (73.)

3-4 Dave Kitson (74.)

4-4 Steed Malbranque (76.)

5-4 Jermain Defoe (79.)

6-4 Dimitar Berbatov (84.)


Darren Bent var ekki valinn í lið Tottenham í dag en Jermaine Jenas var hins vegar í byrjunarliðinu en hann hefur átt við ökklameiðsli að stríða.

Kalife Cisse kom inn fyrir Brynjar Björn Gunnarsson á miðjuna hjá Reading en Brynjar tók í dag út fyrsta leikinn í þriggja leikja banni sínu. Ívar Ingimarsson var á sínum stað í byrjunarliði Reading.

Dimitar Berbatov var í liði Tottenham eins og venjulega og hann var ekki nema nokkrar mínútur að skora fyrsta markið. Fyrirgjöfin kom frá Robbie Keane og skoraði Berbatov af stuttu færi.

Reading náði þó að jafna metin skömmu síðar og var það gegn gangi leiksins. Cisse var þar að verki en hann skoraði með góðu skoti utan vítateigs eftir að Paul Robinson, markvörður Tottenham, sló til hans boltann eftir aukaspyrnu Nicky Shorey.

Tottenham var svo nálægt því að endurheimta forystuna er Berbatov nýtti sér mistök Ívars í vörn Reading og náði að koma boltanum fyrir markið. Þar missti hins vegar Keane naumlega af boltanum.

En Ívar bætti heldur betur fyrir þetta snemma í síðari hálfleik er hann náði að skora annað mark Reading í leiknum og ná forystunni fyrir Readgin heldur óvænt.

Fimmta mark Tottenham var mikilvægt en ólöglegt. Hér skallar Defoe knöttinn í netið í umræddu atviki.Nordic Photos / Getty Images

Reading fékk hornspyrnu og missti Paul Robinson af boltanum sem fór beint fyrir fætur Ívars sem skoraði örugglega.

Önnur varnarmistök urðu þó til þess að Tottenham jafnaði metin á nýjan leik. Graeme Murty gerði ekki betur en svo þegar hann hreinsaði boltann frá marki að hann gaf beint á Berbatov sem þakkaði fyrir sig og þrumaði knettinum í netið.

Síðari hálfleikur var einfaldlega að leysast upp í vitleysu - alla vega í varnarleik liðanna. Reading komst aftur yfir með marki Dave Kitson sem skallaði knöttinn í markið eftir hornspyrnu Shorey.

Dimitar Berbatov náði svo að fullkomna þrennuna þegar hann lék á nokkra varnarmenn Reading og skoraði með góðu skoti. Staðan því aftur orðin jöfn, 3-3.

Leikurinn var þó hvergi nærri búinn. Dave Kitson kom Reading aftur yfir með laglegu vippi yfir Robinson eftir stungusendingu í gegnum vörn Tottenham.

En heimamenn jöfnuðu. Tom Huddlestone gaf á Steed Malbranque sem náði nú að skora með laglegu skoti.

Svo var dæmd vítaspyrna þegar Ibrahima Sonko braut á Robbie Keane. Keane tók sjálfur spyrnuna en Marcus Hahnemann varði frá honum. Jermain Defoe náði frákastinu og skallaði knöttinn í markið.

Markið var reyndar kolólöglegt þar sem Defoe var kominn langt inn í teig þegar að Keane tók spyrnuna.

Sjötta mark Tottenham kom stuttu síðar og það var fjórða mark Berbatov. Hann fékk sendingu inn fyrir vörn Reading. Hann og Ívar börðust um boltann og náði Berbatov einfaldlega að ýta Ívari frá sér og skora í kjölfarið með föstu skoti.

Ótrúlega nokk, reyndist þetta vera lokamark leiksins.

Litli bróðir hafði betur. Anton Ferdinand fagnar marki sínu.Nordic Photos / Getty Images

West Ham - Manchester United 2-1

0-1 Cristiano Ronaldo (14.)

1-1 Anton Ferdinand (77.)

2-1 Matthew Upson (82.)


Wayne Rooney og Michael Carrick eru veikir en Carlos Tevez var í byrjunarliðinu gegn sínu gamla félagi. Louis Saha var með honum í fremstu víglínu. Ryan Giggs, Owen Hargreaves og Patrice Evra voru einnig í byrjunarliðinu á nýjan leik.

Augu flestra beindust að Tevez í upphafi enda maðurinn á bak við ótrúlegan endasprett West Ham á síðastliðnum tímabili er liðið bjargaði sér frá falli.

Tevez var hylltur af stuðningsmönnum West Ham þar sem hann hlaut dynjandi lófatak.

Það voru þó heimamenn sem fengu fyrsta góða færið í dag er Hayden Mullins skaut í samskeytin á marki United af afar stuttu færi. Noble náði frákastinu en missti marks. Báðir leikmenn hefðu átt að gera mun betur.

Cristiano Ronaldo nýtti hins vegar færið sitt vel og skoraði fyrsta mark leiksins. Ryan Giggs átti sendingu fyrir markið og Ronaldo skilaði knettinum í markið með skalla.

Nolberto Solano komst nálægt því að jafna metin er hann átti hörkuskot að marki fremur seint í fyrri hálfleik en skotinu var ýtt yfir slána af Tomasz Kuszczak.

Carlton Cole átti síðan ágæta skalla að marki en boltinn fór yfir mark United í þetta skiptið. West Ham náði þrátt fyrir allt ekki að skora í fyrri hálfleik en reyndi allt sem það gat.

West Ham gaf lítið eftir í seinni hálfleik en fengu þó á sig vítaspyrnu þegar að Jonathan Spector handlék knöttinn á vítateigslínunni. Cristiano Ronaldo gerði hins vegar sjaldséð mistök og skaut framhjá.

Það átti eftir að reynast dýrkeypt þar sem Anton Ferdinand náði að jafna metin fyrir West Ham þegar skammt var til leiksloka. Hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Og þar með var þessu ekki lokið. Matthew Upson náði að skora sigurmark West Ham skömmu síðar með góðu marki sem kom eftir aukaspyrnu Noble. West Ham hefur greinilega gott tak á United þar sem liðið vann báða leiki liðanna á síðustu leiktíð.

Gabriel Agbonlahor skoraði sigurmark Villa í dag.Nordic Photos / Getty Images

Wigan - Aston Villa 1-2

1-0 Titus Bramble (28.)

1-1 Curtis Davies (55.)

1-2 Gabriel Agbonlahor (70.)


Engar breytingar voru gerðar á byrjunarliði Wigan sem vann Newcastle á öðrum degi jóla. Eina breytingin hjá Aston Villa var sú að Curtis Davies kom í byrjunarliðið fyrir Zat Knight sem fékk rautt í leiknum ótrúlega gegn Chelsea á dögunum.

Gestirnir urðu fyrir áfalli er John Carew haltraði snemma af velli meiddur eftir tæklingu Austurríkismannsins Paul Scharner. Luke Moore kom inn á í hans stað.

En heimamönnum til mikillar gleði komust þeir yfir í leiknum þegar að Titus Bramble skoraði sitt fyrsta mark fyrir Wigan á ferlinum. Hann skoraði með kröftugum skalla eftir hornspyrnu Ryan Taylor.

Aston Villa náði þó að jafna metin fyrir Aston Villa snemma í síðari hálfleik. Davies var þar að verki með skalla eftir hornspyrnu Gareth Barry.

Gabrial Agbonlahor kom svo Villa yfir með með skallamarki eftir glæsilegan undirbúning Ashley Young. Það reyndist svo sigurmark leiksins og góður útivallasigur Aston Villa staðreynd.

Hameur Bouazza fékk að líta rauða spjaldið í dag.Nordic Photos / Getty Images

Birmingham - Fulham 1-1

0-1 Carlos Bocanegra (8.)

1-1 Sebastian Larsson (55.)


Engar breytingar voru gerðar á byrjunarliði Birmingham en Ray Lewington, stjóri Fulham, gerði fimm breytingar á liðinu sínu.

Elliot Omozusi, Dejan Stefanovic, Steven Davis, Hameur Bouazza og David Healy voru allir í byrjunarliði Fulham í dag.

Nokkrir Norður-Írar eru í liði Fulham sem Sanchez, landi þeirra, fékk til liðsins á sínum tíma. David Healy er einn þeirra og vildi hann greinilega sýna nýja stjóranum að hann eigi sér framtíð hjá félaginu. Hann lét vaða af skoti eftir aðeins tíu sekúndna leik en hitti ekki markið.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og hefðu bæði lið getað skorað mark á fyrstu fimm mínútunum. Gary McSheffrey kom sér í gott skotfæri en skaut langt yfir mark Fulham.

Það voru þó gestirnir sem voru fyrri til. Carlos Bocanegra skoraði með skalla á nærstöng eftir hornspyrnu Simon Davies er vörn Birmingham svaf illa á verðinum.

Sebastian Larsson náði þó að jafna metin snemma í síðari hálfleik. Hann átti góðan sprett upp vinstri kantinn og náði skoti að marki sem breytti mikið um stefnu þannig að Antti Niemi náði ekki að koma í veg fyrir markið.

Bouazza fékk svo að líta rauða spjaldið í liði Fulham fyrir sitt annað gula spjald.

Fleiri urðu mörkin ekki og urðu liðin því að sætta sig við skiptan hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×