Enski boltinn

Viduka bjargaði andliti Newcastle

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leikmenn Derby fagna marki Kenny Miller.
Leikmenn Derby fagna marki Kenny Miller.

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum. 

Það var athyglisverður leikur á St James' Park þegar botnlið Derby County kom í heimsókn og náði stigi gegn Newcastle. Leikurinn endaði 2-2 en eini sigur Derby á tímabilinu var í fyrri leiknum gegn Newcastle.

Það sló þögn á áhorfendur eftir aðeins sex mínútna leik þegar hinn nítján ára Giles Barnes skoraði fallegt mark og kom Derby yfir. Mark Viduka jafnaði í 1-1 á 27. mínútu með sínu fyrsta marki síðan í september.

Á 52. mínútu endurheimti Derby forystuna. Kenny Miller, sem skoraði sigurmarkið í fyrri viðureign þessara liða, var þar á ferðinni en þess má geta að hann á afmæli í dag.

Baráttuglaðir leikmenn Derby fengu hinsvegar blauta tusku í andlitið á 86. mínútu þegar Ástralinn Mark Viduka skoraði annað mark sitt og bjargaði andlitinu fyrir Newcastle. Úrslitin 2-2.

Þrátt fyrir stigið er Derby enn límt við botnsætið, hefur sex stig en næsta lið fyrir ofan er Wigan með þrettán. Newcastle náði að skríða upp um eitt sæti með þessum úrslitum og er í tíunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×