Enski boltinn

Ronaldo tryggði United sigur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Carlos Tevez og Tim Cahill í baráttunni.
Carlos Tevez og Tim Cahill í baráttunni.

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum. 

Englandsmeistarar Manchester United unnu 2-1 sigur á heimavelli sínum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni. Sigurmarkið kom á 88. mínútu leiksins úr vítaspyrnu en þá skoraði Cristiano Ronaldo sitt annað mark í leiknum.

Cristiano Ronaldo sýndi snilli sína á 22. mínútu þegar hann skoraði magnað mark og kom heimamönnum yfir.

Það tók Everton hinsvegar aðeins fimm mínútur að jafna metin en þá skoraði Tim Cahill laglegt skallamark eftir frábæra fyrirgjöf Steven Pienaar.

Manchester United var talsvert hættulegra liðið í seinni hálfleiknum en allt stefndi þó í jafntefli þegar Pienaar braut á Ryan Giggs innan vítateigs og réttilega var dæmd vítaspyrna. Ronaldo fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Vel skipulagt lið Everton þurfti að játa sig sigrað.

Manchester United er einu stigi á eftir Arsenal sem situr á toppi deildarinnar en Everton er í sjötta sætinu, þremur stigum á eftir grönnum sínum í Liverpool.

Nú klukkan 14:00 hefst leikur Newcastle og Derby. Klukkan 16:10 verður síðan leikur Blackburn Rovers og Chelsea á dagskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×