Enski boltinn

Wenger: Látið Ash og Sol í friði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal halda á lofti platpeningum og hrópa fúkyrði að Ashley Cole, leikmanni Chelsea.
Stuðningsmenn Arsenal halda á lofti platpeningum og hrópa fúkyrði að Ashley Cole, leikmanni Chelsea. Nordic Photos / AFP

Arsene Wenger hefur tekið undir með áskorun Sol Campbell að enska knattspyrnusambandið geri eitthvað í munnsöfnuði áhorfenda á knattspyrnuleikjum.

Frá því að Campbell hringdi sjálfur í fréttastofu BBC á þriðjudaginn hafa leikmenn og knattspyrnustjórar tjáð sig um hegðun áhorfenda á knattspyrnuleikjum.

Á leik Arsenal og Chelsea á sunnudaginn létu stuðningsmenn Arsenal Ashley Cole óspart heyra það enda fyrrum leikmaður Arsenal sem gekk til liðs við Chelsea sumarið 2006.

Cole svaraði reyndar fyrir sig í leikslok en enska knattspyrnusambandið lét það óáreitt.

Á laugardaginn mættust svo Portsmouth og Tottenham en stuðningsmenn síðarnefnda liðsins hafa ekki enn fyrirgefið Campbell fyrir að fara frá liðinu og ganga til liðs við erkifjendurna í Arsenal.

„Staðreyndin er sú að ef leikmenn svara fyrir sig með því að sýna áhorfendum sama dónaskap og þeim sjálfum var sýndur lenda þeir í vandræðum og fá refsinguna. En ekkert er gert þegar áhorfendur láta öllum illum látum gagnvart leikmönnum. Það getur ekki verið sanngjarnt," sagði Wenger.

Talsmaður enska knattspyrnusambandsins neitaði að tjá sig um ummæli Wenger. Hann vísaði hins vegar í fyrri yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins þar sem fram kemur að nú þegar eru til lög og reglur um þessi málefni.

„Slík hegðun er ólögleg," sagði í yfirlýsingunni. „Einstök félög verða að vinna með lögreglunni til að framfylgja lögunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×