Enski boltinn

Abramovich að nálgast 100 milljarða markið

Abramovich hefur eytt jafnvirði álversins við Reyðarfjörð í Chelsea
Abramovich hefur eytt jafnvirði álversins við Reyðarfjörð í Chelsea NordicPhotos/GettyImages

Roman Abramovich er sagður hafa borgað upp rúmlega 4,5 milljarða af skuldum félagsins sem fengnar voru að láni í stjórnartíð Ken Bates. Lánið tók Bates á sínum tíma til að kaupa Stamford Bridge, en Abramovich borgaði upp helminginn af láninu þegar hann keypti Chelsea á sínum tíma.

Daily Mail segir að ólíklegt sé að Rússinn krefjist þess að fá endurgreiðslu frá félaginu þó það sé túlkað sem lán í bókum félagsins. Reikningar félagsins frá síðasta ári sýndu að milljarðamæringurinn hefði þegar lánað félaginu hátt í 35 milljarða króna - auk þeirra rúmlega 55 milljarða sem hann hafi þegar eytt í leikmenn.

Erfitt er að segja til um hve miklum fjárhæðum Abramovich hefur eytt í Chelsea-ævintýrið síðan hann keypti félagið árið 2003, en samkvæmt tölum sem liggja fyrir gæti sú upphæð verið komin í kring um 90 milljarða króna.

Til að setja þessar tölur í íslenskt samhengi má geta þess að sama ár og Abramovich tók við Chelsea, samþykkti Alcoa að reisa álver við Reyðarfjörð. Þá var kostnaðaráætlun við byggingu álversins 90 milljarðar króna, eða svipuð upphæð og Abramovich er sagður hafa eytt í Chelsea. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×