Enski boltinn

Erikson valdi Joe Hart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Hart, aðalmarkvörður Manchester City.
Joe Hart, aðalmarkvörður Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Sven-Göran Eriksson, stjóri Manchester City, hefur tilkynnt að Joe Hart verði aðalmarkvörður Manchester City undir hans stjórn. Það gæti orðið til þess að Andreas Isaksson fari frá félaginu í næsta mánuði.

Í upphafi tímabilsins var talið að koma Eriksson til Manchester City væru góðar fréttir fyrir Isaksson enda báðir Svíar og býr Isaksson yfir mikilli reynslu með sænska landsliðinu.

Isaksson hefur hins vegar átt við meiðsli að stríða í haust og hefur ekki þótt standa undir væntingum í þeim leikjum sem hann hefur spilað.

Hart hefur spilað átta leiki á tímabilinu, nú síðast gegn Tottenham í ensku deildabikarkeppninni. Hann er einnig fastamaður í U-21 landsliði Englands.

„Ég sagði Andreas fréttirnar og hann var auðvitað ekki ánægður með þær," sagði Eriksson. „Ég sagði honum að það væri undir honum sjálfum komið hvort hann myndi fara eða vera áfram og berjast fyrir sínu sæti. En það var mikilvægt fyrir alla aðila að ég myndi tilkynna ákvörðun mína áður en félagaskiptaglugginn opnar um áramótin."

Eriksson hefur mikla trú á Hart. „Ég hef trú á því að hann verði frábær markvörður í framtíðinni. Hann er aðeins tvítugur að aldri og verður bara betri og betri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×