Enski boltinn

Redknapp tekur undir með Campbell

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Portsmouth.
Harry Redknapp, stjóri Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Harry Redknapp, stjóri Portsmouth, hefur tekið undir með Sol Campbell, leikmanni liðsins, sem á dögunum sagði að munnsöfnuður áhorfenda knattspyrnuleikja væri fyrir neðan allar hellur.

Campbell er ekki í miklum metum hjá stuðningsmönnum Tottenham síðan hann fór frá liðinu til erkifjendanna í Arsenal fyrir nokkrum árum. Nú leikur hann hins vegar með Portsmouth en þegar liðin mættust um helgina létu stuðningsmenn Tottenham öllum illum látum gagnvart honum.

Redknapp fékk sjálfur að kenna á ljótum munnsöfnuði áhorfenda er stuðningsmenn Aston Villa létu hann heyra það fyrir skemmstu.

„Hvernig eigum við að geta stöðvað þetta?" spurði Redknapp. „Hvernig er hægt að færa það í lög að fullorðnir karlmenn eigi ekki að haga sér á þennan máta?"

„Stuðningsmennirnir segja að þar sem þeir borguðu sig inn á leikinn sé það þeirra réttur að láta svona en þessi hegðun er algjörlega óásættanleg."

Redknapp hefur áður kvartað undan þessu á tímabilinu og það hafa þeir Alex Ferguson og Avram Grant einnig gert.

Campbell var nóg boðið eftir helgina og hringdi sjálfur í fréttastofu BBC í gær þar sem hann sagði að enska knattspyrnusambandið þyrfti að bregðast við þessum vanda.

„Það verður erfitt að fá áhorfendur til að hætta þessu," sagði Campbell. „Þetta gerðist ekki oft þegar ég fór sjálfur ungur á völlinn með pabba mínum en nú gerist þetta æ oftar."


Tengdar fréttir

Keane er ósammála Campbell

Robbie Keane, fyrirliði Tottenham, er ekki sammála fullyrðingum varnarmannsins Sol Campbell um að munnsöfnuður áhorfenda í ensku úrvalsdeildinni sé genginn fram úr hófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×