Innlent

Ísland fái undanþágur vegna losunarheimilda frá flugi

MYND/Rósa

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur farið fram á það að tekið verði tillit til landfræðilegrar sérstöðu Íslands þegar fjallað veðrur um tillögur um að fella flugsamgöngur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum.

Fram kemur í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu að ráðherra hafi beint þessum tilmælum til starfssystkina sinna í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ráðherraráð ESB mun fjalla um ofangreindar tillögur.

Í bréfi til umhverfisráðherranna segir Þórunn að íslensk stjórnvöld styðji aðgerðir Evrópusambandsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda almennt en að slíkar aðgerðir þurfi að vera sanngjarnar og taka tillit til sérstakra aðstæðna. Þá fagni þau ákvörðun Evrópuþingsins um að við útfærslu kerfisins verði tillit tekið til flugs til og frá jaðarsvæðum.

Umhverfisráðherra óskar eftir því í bréfi sínu að ráðherraráðið útfæri þessa ákvörðun betur til að tryggt sé að tillit verði tekið til sérstakra aðstæðna á Íslandi. Íslendingar þurfi að reiða sig í meira mæli á flugsamgöngur en flestar aðrar þjóðir. Það hafi því mun meiri áhrif hér á landi en annars staðar innan EES að fella flugsamgöngur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir.

Með því að fella flugsamgöngur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir vill Evrópusambandið hvetja farþega sem ferðast innan Evrópu til að nota í auknum mæli aðra vistvænni samgöngukosti, t.d. lestir.

Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, mun sitja samráðsfund norrænna umhverfisráðherra fyrir hönd umhverfisráðherra í Brussel á morgun þar sem málið verður tekið til umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×