Enski boltinn

Eiður Smári verður ekki keyptur til West Ham

Eiður Smári er ekki á innkaupalista West Ham í janúar
Eiður Smári er ekki á innkaupalista West Ham í janúar NordicPhotos/GettyImages

Vísir hefur heimildir fyrir því að engin sérstök kaup séu fyrirhuguð hjá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham í janúarglugganum og því sé Eiður Smári Guðjohnsen ekki á óskalista félagsins eins og talað er um í bresku blöðunum.

Alan Curbishley hefur ekki útilokað leikmannakaup vegna gríðarlegra meiðsla í hóp liðsins, en hann kýs þó heldur að bíða eftir að leikmenn sem fyrir eru hjá félaginu nái heilsu.

Breskir fjölmiðlar hafa verið iðnir við að orða Eið Smára Guðjohnsen við félög á Englandi undanfarið og síðast í dag birti Sun frétt um að það þrír klúbbar á Englandi væru nú að berjast um að kaupa Eið Smára fyrir 8 milljónir punda í janúar.

Þetta voru að sögn blaðsins West Ham, Manchester City og Newcastle. Blaðið hefur eftir Arnóri Guðjohnsen að Eiður muni taka ákvörðun um framtíð sína hjá Barcelona á næstu tveimur vikum, en í ítarlegu viðtali við Vísi á dögunum sagðist Eiður ekki sjá annað fyrir sér en að hann yrði áfram í Katalóníu.

Sem stendur eru hvorki meira né minna en tíu menn á meiðslalista West Ham og dæmi eru um að stjórinn hafi varla séð þá spila fótbolta síðan hann tók við.

West Ham er sem stendur í 11. sæti úrvalsdeildarinnar og hafa meiðsli manna á borð við Fredrik Ljungberg, Craig Bellamy og Kieron Dyer sannarlega sett strik í reikninginn hjá liðinu í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×