Innlent

Byrja vonandi að fljúga í kvöld

Allt millilandaflug hefur legið niðri í dag vegna fárviðris á Keflavíkurflugvelli en afar sjaldgæft er að slíkt gerist. Þá var öllu flugi um Reykjavíkurflugvöll aflýst í morgun.

Ferðatilhögun um fimmþúsund manna og kvenna hefur riðlast vegna þessa. Vindurinn á Keflavíkurflugvelli hefur staðið á milli flugbrauta þannig að vélarnir hefðu þurft að taka á loft og lenda í hliðarvindi. Vindhraðinn hefur hvað eftir annað farið yfir 35 metra á sekúndu og verið mun hvassari í hviðunum. Afar sjaldgæft er að millilandaflug raskist svo mikið vegna veðurs. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair sagði í samtali við fréttastofu ekki muna eftir öðru eins og að dagurinn hafi að mestu farið í að reyna að koma þeim farþegum sem ætluðu að millilenda hér á leið til Ameríku, í önnur flug. Hann sagðist búast við því að fyrstu vélarnar gætu lent á Keflavíkurflugvelli nú um kvöldmatarleytið og síðan væri unnið að því smátt og smátt að vinda ofan af þeim töfum sem orðið hafa. Það gæti tekið tvo til þrjá daga.

IcelandExpress hefur heldur ekkert geta flogið Matthías Imsland, forstjóri fyrirtækisins sagðist vonast til að hægt verði að fljúga í kvöld og dagurinn á morgun færi í að koma flugi á áætlun að nýju.

Þeir Guðjón og Matthías sögðu báðir að ljóst væri að félögin töpuðu mikið á verðinu. Ekki væri hægt að tryggja sig fyrir máttarvöldunum og því lenti það alfarið á fyrirtækjunum. Þeir sögðu það þó ekki vera áhyggjuefni dagsins heldur hitt að reyna að koma viðskiptavinum sínum á áfangastað hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×