Innlent

Handtekinn vegna bruna í Fiskiðjunni

Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók nú undir kvöld mann sem talinn er hafa verið í gamla Fiskiðjuhúsinu við Ægisgötu skömmu áður en eldur kom þar upp í nótt.

Skýrsla verður tekin af honum í kvöld vegna málsins. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að hún hafi í dag yfirheyrt um tíu unga menn í tengslum við brunann en sterkur grunur er um að kveikt hafi verið í húsinu. Hafa sumir verið í haldi frá því snemma í morgun.

Rannsókn hefur beinst að því að upplýsa mannaferðir í húsinu skömmu fyrir brunann og hefur hún leitt í ljós að nokkrir ungir menn voru í húsinu fyrr um nóttina.

Húsið hefur verið lokað að undanförnu,en nokkrir aðilar hafa haft lyklavöld að því, m.a. til hljómsveitaræfinga. Til stóð að loka æfingaaðstöðunni eftir helgi þar sem unglingar voru farnir að nota hana sem samkomustað til áfengis- og fíkniefnaneyslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×