Innlent

Veður aftur að versna - 30 hjálparbeiðnir á klukkustund

Veður aftur að versna á Vesturlandi eftir að það gekk niður í kringum hádegisbil. Alls hafa nærri 300 hjálparbeiðnir borist samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag eftir því sem segir í tilkynningu frá henni.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofu fóru veðurskil yfir Vesturlandið um hádegisbil og lægði aðeins í kjölfarið. Síðan hefur bætt aftur í vindinn og núna er ástandið verst í Grindavík og nágrenni. Þar biður hafnarstjórinn bátaeigendur að huga að bátum sínum því þar er bálhvasst og mikil ölduhæð.

Einnig er mjög hvasst á norðanverðu Snæfellsnesi og öllum fjallvegum á Vestfjörðum. Úrkoma hefur minnkað á Vesturlandi en vaxið að sama skapi á Austurlandi.

Ekkert lát er á beiðnum um aðstoð vegna óveðursins og í Samhæfingarstöð eru um 30 beiðnir skráðar á hverjum klukkutíma. Alls hafa borist 292 beiðnir um aðstoð frá því í nótt, þar af eru 195 beiðnir á höfuðborgarsvæðinu. Mikið álag hefur verið á öllum viðbragðsaðilum og hafa björgunarsveitarmenn verið að störfum síðan klukkan 3 síðastliðna nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×