Innlent

Mikið keypt af húsgögnum í nóvember

MYND/Vilhelm

Svo virðist sem jólaverslun þessa árs hafi byrjað fyrir alvöru í húsgagnaverslunum landsins í nóvember því velta slíkra verslana jókst um nærri fimmtung milli október- og nóvembermánaða samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Almennt jókst veltan í dagvöruverslunum um 0,3 prósent milli mánaðanna en hins vegar jókst hún um rúm 12 prósent þegar nóvembermánuður í ár er borinn saman við sama mánuð í fyrra. Sala áfengis jókst í nóvember eftir að hafa dregist saman í tvo mánuði í röð. Sala áfengis í nóvember var rúmum tíu prósentum meiri en í mánuðinum á undan og nærri 20 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra.

Velta í fataverslun jókst um 4,3 prósent á milli október og nóvember en skóverslun dróst hins vegar saman um 2,7 prósent á sama tíma ef miðað er við breytilegt verðlag. Mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fata- og skóverslunar hófust í byrjun þessa árs og því er ekki til samanburður á þessum tegundum verslunar frá því í fyrra.

Rannsóknarsetur verslunarinnar bendir enn fremur á að á tveggja ára tímabili, frá nóvember 2005 til nóvember í ár, hafi veltuauking í dagvöruverslunum numið tæplega 27 prósentum á meðan verðlag á dagvöru hækkaði um tæp sex prósent. Íslenskir neytendur verji því rúmlega fjórðungi meira til kaupa á dagvöru nú en fyrir tveimur árum ef miðað er við verðlag hvers árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×