Innlent

Enn annríki hjá björgunarsveitum á vesturhluta landsins

MYND/Stöð 2

Hátt í 300 björgunarsveitarmenn eru enn að störfum á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi við að aðstoða fólk vegna veðurhamsins sem gengið hefur yfir landssvæðið í dag.

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, eru verkefni björgunarsveitanna á höfuðborgarsvæðinu orðin 150 í dag og snúa þau meðal annars af þakplötum og gervihnattadiskum sem fokið hafa í hvassviðrinu.

Þá hafa um 60 björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum staðið í ströngu og sinnt hátt í fimmtíu verkefnum og á Akranesi og í Borgarnesi hafa björgunarsveitir einnig haft í nógu að snúast. Lögregla og slökkvilið hafa einnig sinnt fjölmörgum útköllum vegna veðurofsans

Á Vestfjörðum hafa sveitir hins vegar ekki verið kallaðar út en þær eru í viðbragðsstöðu en reiknað er með að illviðri færist þangað þegar líður á daginn.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu hefur veðurspá lítið breyst og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er áfram mikið hvassviðri á öllum helstu leiðum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Er fólk beðið að kynna sér ástandið á vegum áður en lagt er af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×