Innlent

Talsvert tjón í IKEA - líklega opnað aftur klukkan tvö

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir tjónið vegna vatnslekans í búðinni vera talsvert en að tryggingafélagið muni meta það síðar nákvæmlegar. Stífluð niðurföll orsökuðu að hálfgert stöðuvatn myndaðist á þaki verslunarinnar sem gaf sig að lokum með þeim afleiðingum að tugþúsundir lítra vatns streymdu inn í verslunina.

„Tjónið er talsvert, við erum með parket á gólfum og mikið af innréttingum sem eru viðkvæmar fyrir vatni," segir Þórarinn. Vatnið var mest á efri hæð verslunarinnar en einnig lak niður á jarðhæð. „Grunnvatnsstaðan er svo lág hér hjá okkur að niðurföllin önnuðu engan vegin vatnsflaumnum í rigningunni í morgun. Það olli því að vatn safnaðist fyrir á þakinu þangað til eitthvað gaf sig," segir Þórarinn. Versluninni hefur verið lokað en Þórarinn segist vonast til að geta opnað aftur að hluta klukkan tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×