Innlent

Skólahald raskaðist víða vegna veðurhams

Skólahald raskaðist víða á suðvesturhorninu í morgun vegna veðurofsans. Almannavarnir beindu þeim tilmælum til skólanna nú fyrir hádegi að senda börn ekki ein heim á fæti. Þó voru dæmi um að börn sem komu gangandi í Lágafellsskóla í morgun fengu ekki að fara inn fyrir dyr til að hringja í foreldra sína.

Mjög hvasst er í verstu hviðum og þá getur veðurofsinn auðveldlega kippt fótunum undan litlum krökkum. Skólahald var víða fellt niður í nágrenni borgarinnar. Meðal annars var kennslu aflýst í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur heimildir fyrir því að þar hafi börn komið fótgangandi í skólann í morgun en ekki fengið að fara inn til að hringja í foreldra sína. Annar skólastjóranna neitar því og segir að öll börn í sjöunda bekk og yngri hafi fengið að hringja og verið sótt.

Lögreglan á Suðurnesjum hvetur foreldra til að sækja börn sín í skólann við fyrsta tækifæri. Og segja foreldra verða að koma inn í skólann og sækja börnin. Þeim verði ekki hleypt út í óveðrið án fylgdar fullorðinna.

Á höfuðborgarsvæðinu var veðrið verst í efri byggðum - og í Hólabrekkuskóla í Breiðholti mætti lítið brot af nemendum. Starfsfólk þar svaraði símanum í gríð og erg í morgun til að taka á móti tilkynningum um að yfir 300 börn kæmu ekki í skólann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×