Innlent

Um 300 björgunarsveitarmenn að störfum í illviðri

Um 300 björgunarsveitarmenn eru nú að störfum á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi eftir því sem segir í tilkynningu frá Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð.

Um 120 útköll hafa borist á höfuðborgarsvæðinu, 15 á Akranesi, 25 á Suðurnesjum auk þess sem sveitir hafa sinnt verkefnum víða á Suðurlandi, Suðvesturlandi og Norðvesturlandi. Beiðnum um aðstoð fer fjölgandi á Vesturlandi að sögn almannavarna.

MYND/Stöð 2

Annríki er einnig mikið hjá lögreglu, slökkviliði og öðrum viðbragðsaðilum á Suður- og Vesturlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu er vindur að snúast í suðlægari áttir og er veður aðeins að ganga niður undir Hafnarfjalli. Hins vegar er að hvessa á Breiðafirði, Vestfjörðum og á Ströndum. Á Holtavörðuheiði fer vindur yfir 30 metra á sekúndu í hviðum og á Kjalarnesi hefur vindur farið yfir 34 metra í hviðum.

 

Á heildina litið er enn mjög hvasst á öllu Suður- og Vesturlandi og er að hvessa á Norðurlandi. Veðurstofan reiknar ekki með að veður gangi niður á Suður- og Vesturlandi fyrr en með kvöldinu.

Fréttamaður Stöðvar 32 náði tali af björgunarmönnum úr Björgunarfélagi Hafnarfjarðar fyrir hádegi. Þeir höfðu verið að síðan klukkan sjö í morgun og í nógu að snúast. Ásgeir Guðjónsson, einn björgunarsveitarmanna, sagði aðspurður að fólk væri almennt ekki nógu vel undirbúið fyrir illviðrið og hefði ekki fest hluti nógu vel niður. Þá hefðu verktaka ekki gengið nógu vel frá stillönsum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×