Innlent

Álag á samhæfingarmiðstöð minnkar eilítið

Strætóskýli fauk upp á ellefta tímanum í morgun á Krókhálsi.
Strætóskýli fauk upp á ellefta tímanum í morgun á Krókhálsi. MYND/Sigríður Guðlaugsdóttir

Um 130 björgunarsveitarmenn eru nú að störfum í höfuðborgarsvæðinu ásamt lögreglu og slökkviliði og segja almannavarnir að vel gangi að sinna þeim beiðnum um aðstoð sem borist hafa. Þær eru á níunda tug það sem af er degi.

Álag á samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð hefur aðeins minnkað en þessa stundina er mest um hvers kyns fok auk þess sem vatn er farið að safnast í kringum niðurföll.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu. Þegar hafa foreldrar grunnskólabarna verið beðnir um að halda börnum sínum heima. Ennfremur er því beint til skólastjórnenda að senda börn sem komin eru í skólana ekki heim nema í öruggri fylgd foreldra eða forráðamanna.

Þá tóku fræðsluyfirvöld á Suðurnesjum þá ákvörðun að hvetja foreldra í Reykjanesbæ til að sækja börnin sín í skólann við fyrsta tækifæri. Foreldrar verða að koma inn í skólann og sækja barnið. Skólarnir munu sjá til þess að ekkert barn fari án fullorðins út í óveðrið.

Sama á við Grindavíkurskóla og Stóru-Vogaskóla í Vogum. Í Gerðaskóla í Garði er nokkur fjöldi barna í skólanum og hafa skólayfirvöld þar rætt við foreldra barnanna um að sækja þau. Öllu skólahaldi var aflýst í Sandgerðisskóla í morgun og eru öll börnin sem voru komin í skólann komin til síns heima.

 

Enn fremur er vonskuveður undir Eyjafjöllum og hvetur lögreglan á Hvolsvelli fólk til að vera þar ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Við Steina undir Eyjafjöllum eru veðurhæð 30 metrar í hviðum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þá vill lögreglan á Akranesi ítreka að fólk hugi að lausum munum og vera ekki á ferli að nauðsynjalausu. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ennþá mjög hvasst undir Hafnarfjalli og þar er ekkert ferðaveður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×