Innlent

Tólf ára skeiði stóriðjuframkvæmda lokið

Smíði álvers Alcoa á Reyðarfirði lauk í dag. Þar með er lokið tólf ára skeiði samfelldra stóriðjuframkvæmda í landinu.

Alcoa Fjarðaál kvaddi nú síðdegis verktakafyrirtækið Bechtel sem byggði álverið á Reyðarfirði. Þar með lauk þeim framkvæmdum formlega. Þá var því lýst yfir á Grundartanga fyrir tveimur vikum að stækkun álvers Norðuráls væri lokið. Með lokum þessara tveggja risaverkefna er komin upp sú staða að hvergi á landinu er verið að byggja álver eða annað stóriðjuver eftir nær samfellt tólf ára tímabil slíkra framkvæmda. Framkvæmdaskeiðið hófst árið 1995, þegar samið var um stækkun álversins í Straumsvík með byggingu þriðja kerskálans. Stækkun Straumsvíkur lauk árið 1997. Smíði Norðuráls á Grundartanga hófst sama ár og hefur smíði þess álvers staðið yfir meira og minna síðan í þremur áföngum með litlum hléum á milli. Lengsta hléið þar var brúað með stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga á árunum 1998 til 1999. Framkvæmdirnar á Reyðarfirði hófust svo árið 2005. Öllum þessum stóriðjuframkvæmdum hafa fylgt umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir og standa þær raunar enn yfir. Þannig vinna hátt í 400 manns í vetur við síðasta áfanga Kárahnjúkavirkjunar. Þetta er þó aðeins tíundi hluti þess mannfjölda sem vann við framkvæmdirnar á Austurlandi þegar mest var sumarið 2006 en þá unnu þar um fjögur þúsund manns. Ekki er þó víst að hlé á álversframkvæmdum standi lengi. Norðurál undirbýr smíði álvers í Helguvík og miðar við að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Þá undirbýr Alcoa smíði álvers við Húsavík og stefnir að því hefjast handa árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×