Innlent

Blóðbað á Fljótsdalsheiði

Ekið var á tvö hreindýr á Fljótsdalsheiði fyrir skömmu síðan.
Ekið var á tvö hreindýr á Fljótsdalsheiði fyrir skömmu síðan.

Ekið var á þrettán hreindýr á við svokallað Norðastafell á Fljótsdalsheiði í morgun með afleiðingum að tíu þeirra drápust strax en aflífa þurfti þrjú. Að sögn lögreglu var aðkoman líkust vígvelli. Það var starfsmaður verktakafyrirtækisins Arnarfells sem varð fyrir því að keyra á dýrin.

„Þetta var vígvöllur," segir lögreglumaður á Egilsstöðum sem kom að óhappinu. „Dýrin drápust ekki öll samstundis en þeir voru búnir að skera tvö á háls áður en við komum á staðinn. Við skutum svo þrettánda dýrið," sagði lögregluþjónninn. Hann segir ótrúlegt að ökumaðurinn hafi ekki slasast í ákeyrslunni en tiltölulega lítið sér á bílnum sem er pallbíll af Nissan gerð. „Dýrin lentu að því er virðist undir bílnum að mestu en ekki á honum."

Starfsmaður Arnarfells sem Vísir náði tali af tekur undir með lögreglu að með ólíkindum sé hve lítið sér á bílnum. „Við bara skiljum þetta ekki. Vinstra framljósið brotnaði og stuðarinn fór en annað er ekki að sjá á bílnum," segir hann. Hann segist hafa komið á slysstað rétt eftir áreksturinn og hann segir hluta skýringarinnar liggja í því hve létt dýrin séu á þessum árstíma. Einnig hafi verið mikið af ungviði í hjörðinni en um 100 dýra hjörð hljóp var á veginum þegar bíllinn skall á dýrunum."

Starfsmaður Arnarfells, sem lenti í því að keyra á dýrin er portúgalskur og var hann að aka vinnufélaga sínum á flugvöllinn á Egilsstöðum.

Að sögn lögreglunnar á Seyðisfirði var myrkur var og hálka á slysstað. Dýrin munu hafa stokkið beint fyrir bílinn og ökumaður ekki orðið þeirra var fyrr en þau skullu á bifreiðinni.

Stutt er síðan umferðareftirlitsmenn Vegagerðarinnar fundu tvö dauð hreindýr á svipuðum slóðum eða 21. nóvember síðastliðinn. Þá varaði Vegagerðin við því að stórir hópar dýra væru á þessum slóðum og voru ökumenn beðnir um að gæta sérstakrar varúðar.

Málið er í rannsókn hjá lögreglunni í umdæmi lögreglustjórans á Seyðisfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×