Innlent

Biðröð þegar Just4Kids opnaði í morgun

Almenningur virðist vera á tánum þegar kemur að verðlagi leikfangaverslana. Just4Kids sendu frá sér tilkynningu sem birtist í blöðunum í morgun þess efnis að búðin ætlaði sér í verðstríð á markaði með því að lækka vörur sínar um 30 til 80 prósent. Það stóð ekki á árvökulum neytendum en þegar búðin opnaði klukkan ellefu í morgun hafði myndast löng biðröð.

„Það er eðlilegt að fólk taki við sér þegar maður tekur upp á því að gefa leikföng," segir Elías Þorvarðarson, eigandi Just4Kids, sem segir lækkunina það mikla að það sé ekki hægt að kalla það annað en gjöf. „Við erum búin að lækka verðið umtalsvert frá því sem var og í síðustu verðkönnun kom í ljós að við vorum með lægsta verðið fyrir."

Verðlækkunin er þó tímabundin því Elías segir ekki mögulegt að reka verslun með svona lágum verðum til langs tíma. „Þetta er liður í því að koma okkur fyrir á markaðinum. Við opnuðum fyrir mánuði síðan en höfðum ráðgert að opna fyrr, þarafleiðandi er dýrara fyrir okkur að festa okkur í sessi í huga fólks og það kom annar risi inn á markaðinn á undan okkur. Þessi mikla lækkun er því tímabundin en þar fyrir utan er stefna okkar að vera ávallt ódýrastir og þannig verður það áfram," segir Elías Þorvarðarson, ánægður með viðtökurnar í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×