Innlent

Síðasti kafli Reykjanesbrautar tvöfaldaður á næsta ái

Stefnt er að þvi að tvöfalda vegarkafla Reykjanesbrautar frá kirkjugarðinum í Hafnarfirði að Hvassahrauni seinni hluta næsta árs. Vegagerðin segir að ekki standi á fjárveitingum heldur á skipulagsákvörðunum Hafnarfjarðarbæjar og umhverfismati.

Unnið hefur verið að tvöföldun Reykjanesbrautar frá árinu 2003. Frá Njarðvíkurfitjum er unnið að tvöföldun brautarinnar á 12 kílómetra kafla og hafa þrír kílómetrar nú þegar verið teknir í notkun. Þá hefur 12 kílómetra kafli verið tvöfaldaður frá Hvassahrauni suður undir Vogaafleggjara. Þá er átta kílómetra vegarkafli frá Hvassahrauni að kirkjugarðinum í Hafnarfirði eini kaflinn sem eftir á að tvöfalda.

Jónas Snæbjörnsson svæðisstjóri hjá Vegagerðinni segir að búið sé að fá fjármagn fyrir tvöföldun kaflans en dregist hafi að ljúka hönnun og fá hann samþykktan í umhverfismati.

Nýlega varð alvarlegt umferðarslys á veginum en Jónas segir skipulagsmálin í höndum Hafnarfjarðarbæjar og ekki verði hægt að byrja á tvöföldun vegarkaflans fyrr en bæjaryfirvöld hafi samþykkt allt skipulag svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×