Innlent

Glímdu við um 60 verkefni á Akranesi í nótt

Á höfuðborgarsvæðinu urðu einnig miklar skemmdir í veðurhamnum.
Á höfuðborgarsvæðinu urðu einnig miklar skemmdir í veðurhamnum. MYND/Stöð 2

Lögregla á Akranesi og Björgunarfélag Akraness glímdu samtals við um 60 mál í illviðrinu sem gekk yfir vesturhluta landsins í nótt.

Fram kemur í frétt lögreglunnar að söluskúr ÍA á Jaðarsbökkum hafi fokið og farið þrjár veltur áður en hann staðnæmdist á bifreiðaplani og 300 fermetra skemma á fauk tugi metra í veðurhamnum. Skemman er ónýt eftir flugið.

Enn fremur uður bátar fyrir tjóni og var unnið við það í nótt að festa báta bæði í höfninni og eins þá sem stóðu uppi á landi. Þá splundraðist kerrugeymlsa við Krónuna og skilti fauk af verslun BT í sömu verslunarmiðstöð. Ekki var öllu lokið því hluti þaks á hesthúsi við Æðarodda fauk í veðurofsanum.

Fæstir þakka björgunarmönnum fyrir störf þeirra

„Björgunarfélagsfólki verður seint fullþökkuð þeirra aðstoð. Ljóst er að vinna þeirra og lögreglu í nótt varð til þess að miklum verðmætum var bjargað og tjón lágmarkað þar sem það varð. Við þessi störf leggur björgunarfólk sig í hættu fyrir aðra við erfiðar aðstæður og oftar en ekki um miðja nótt eins og í þessu tilfelli. Það verður líka að teljast dálítið merkilegt að fæstir sem njóta góðs af láta svo lítið að þakka fyrir sig en í samtali lögreglu við formann björgunarfélagsins í morgunsárið kom fram að fátítt er að þeir heyri nokkuð frá þeim sem félagsmenn aðstoða," segir í frétt lögreglunar sem þakkar björgunarmönnum innilega fyrir veitta aðstoð.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að án þeirra aðstoðar hefði ástandið farið algjörlega úr böndunum og ekkert ráðist við neitt. Við gerum okkur einnig fulla grein fyrir því að það er meira en að segja það að vera rifinn fram úr rúminu og út í óveðrið til að slást við fjúkandi bárujárnsplötur og það oft á meðan eigendurnir sofa værum svefni," segir lögreglan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×