Innlent

Mikill viðbúnaður vegna óveðurs

Björgunarsveitin Suðurnes var kölluð út fyrr í kvöld vegna óveðurs sem nú gengur yfir suðvesturhorn landsins. Um 30 björgunarsveitarmenn hafa sinnt sex útköllum, m.a. var þak að losna af húsi við Heiðarbraut, bílskúr að fjúka og festingar undir jólatré gáfu sig, segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu .

Á Kjalarnesi hefur Björgunarsveitin Kjölur verið kölluð út til að hefta fok.

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Snæfellsbæ hafa verið settar í viðbragðsstöðu en búist er við að óveðrið nái hámarki um um klukkan þrjú í nótt á Suðurlandi og verður ekki gengið niður fyrr en snemma í fyrramálið á Vestfjörðum og Norðvesturlandi.

Samhæfingarstöðinn í Skógarhlíð var virkjuð í kvöld vegna slæmrar veðurspár fyrir nóttina. Fylgst verður með framgangi veðursins og aðgerðir samhæfðar þar ef þurfa þykir.

Við störf eru fulltrúar Almannavarnadeildar og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, Landsstjórnar björgunarsveita, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×