Innlent

Jafnréttisráðuneytið mismunar kynjunum

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Félagsmálaráðuneytið, ráðuneyti jafnréttismála, borgar konum lægri laun en körlum. Þetta kemur fram í nýrri launakönnun Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins.

Könnunin sýnir að munur er á launum háskólamenntaðra karla og kvenna sem starfa undir stjórnarráði Íslands. Þar kemur fram að háskólamenntaðir karlar hjá ráðuneytunum, Fjársýslu ríkisins og Hagstofunni, eru með 374 þúsund krónur að meðaltali í dagvinnulaun - en konur tæplega 350. Miklu munar á heildarlaunum kynjanna - næstum hundrað þúsund krónum mánaðarlega. Meðalheildarlaun háskólamenntaðra karla eru 519 þúsund - en 417 þúsund krónur hjá konum.

Fréttastofa hefur fengið staðfest að þetta eigi líka við um ráðuneyti jafnréttismála - félagsmálaráðuneytinu. Og herma heimildir okkar í ráðuneytinu að urgur hafi verið meðal starfsmanna, einkum háskólamenntaðra kvenna, eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir. Hins vegar fæst ekki uppgefið hver launamunurinn er í félagsmálaráðuneytinu og mun það hafa verið skilyrði fyrir því að félagið fékk leyfi til að gera þessa könnun að ráðuneytin yrðu ekki nafngreind.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×