Innlent

Eldurinn á Eiðistorgi: Konan rak sig í takka á eldavélinni

Breki Logason skrifar
Eldurinn kom upp í íbúð á fjórðu hæð við Eiðistorg 5.
Eldurinn kom upp í íbúð á fjórðu hæð við Eiðistorg 5.

„Ég fór í vinnu um hálf tíu og fékk síðan símtal um tíu leytið," segir Íris Gústafsdóttir hárgreiðslumeistari sem býr í íbúðinni sem varð eldi að bráð við Eiðistorg í morgun. Hún segir fréttir sem þessar ekki skemmtilegar og henni var því skiljanlega brugðið í morgun.

Írís býr í íbúðinni ásamt börnunum sínum tveimur og fór hún með þau í leikskólann rétt fyrir níu í morgun. „Ég kom síðan aftur heim og fékk mér aðeins að borða. Síðan var ég farin út hálf tíu og virðist hafa rekið mig í takka á eldavélinni," segir Íris og bætir því við að auðvelt sé að snúa tökkunum á eldavélinni en hún hafi ekki orðið vör við neitt í morgun.

Íbúð Írisar er á fjórðu hæð við Eiðistorg 5 og voru það nágrannar sem urðu varir við að reykskynjari fór í gang í íbúðinni. „Eldhúsið er alveg skemmt og þaðan þarf að hreinsa allt út og þrífa. Myndir og allt það sluppu sem betur fer en húsgögn og annað er allt úti í sóti, það er allt svart hérna og mikið sem þarf að þrífa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×