Innlent

Búist við 600 milljóna króna afgangi í Hafnarfirði á næsta ári

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. MYND/E.Ól

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði gera ráð fyrir að rekstur bæjarfélagsins skili 600 milljóna króna afgangi á næsta ári.

Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun sem tekin var til fyrri umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag. Bent er á að Hafnarfjörður eigi 100 ára kaupstaðarafmæli á næsta ári og ljóst sé að þetta verði mesta framkvæmdaár í sögu kaupstaðarins.

Þannig á að fjárfesta fyrir 6,7 milljarðar króna á árinu, meðal annars með áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja, skóla og gatna, fráveitu og vatnsveitu.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að mikill viðsnúningur hafi orðið á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins á síðustu árum og framkvæmdageta vaxið samhliða stórfjölgun íbúa. Íbúafjölgun er um 5 prósent á árinu 2007 líkt og árið á undan og gert er ráð fyrir ríflega þriggja prósenta íbúafjölgun á árinu 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×